((Þetta blogg er líka til á Ensku. This blog also exists in English). Upp á síðkastið höfum við hjá Eldfjallahúsinu lagt áherslu á að bjóða skólahópum í heimsókn til okkar. Ef þig vantar meiri upplýsingar um slíkt, lestu neðst á síðunni.

Nýverið kom hópur úr 5. og 6. bekk Landakotsskóla í heimsókn til okkar í Eldfjallahúsinu.

Hersingin mætti stundvíslega kl 09:00 og var skipt í tvo hópa: Enskumælandi og Íslenskumælandi. Síðarnefndi hópurinn fékk að sjá 30 mínútna heimildamynd um Eyjafjallajökul á meðan Enskumælandi hópurinn fór í skoðunarferð um safnið. Svo fékk Enskumælandi hópurinn að sjá sýningu á Ensku, og Íslenskumælandi hópurinn skoðaði safnið.

Volcano House Skólaheimsókn

Fræðimennirnir ungu heyrðu söguna af Vestmannaeyjagosinu 1973 og fengu að snerta hraun og vikur þaðan, létu vikur frá Heklu fljóta í vatni og sáu ótrúlega fínu öskuna frá Eyjafjallajökulsgosinu 2010.

Þau fengu að halda á í höndum sér stein sem er rétt rúmlega árs gamall, frá gosinu í Holuhrauni 2014, og skoðuðu allskyns skrautsteina; t.d. kristalla, ópal, silfurberg, eldfjallagler og hrafntinnu.

Ekki var betur séð en að gestirnir og starfsfólkið skemmti sér konunglega en skemmst er frá því að segja að krakkarnir gáfu Ragga hópknús áðuren heim var haldið.

Svo bættu þau um betur og sendu þessi æðislegu bréf til að þakka fyrir sig! ?

Takk fyrir okkur, krakkar og kennarar Landakotsskóla. Endilega kíkið aftur við sem fyrst!

Ef þú hefur áhuga á að skipuleggja skólahóp í Eldfjallahúsið, endilega sendu okkur skilaboð á info@volcanohouse.is, hringdu í síma 555 1900 eða kíktu í heimsókn á Tryggvagötu 11.